Umsnúið alræði

Fyrir nokkru birti ég hérna stuttan kafla úr nýútkominni bók eftir bandaríska blaðamanninn Chris Hedges,  Death of the Liberal Class, þar sem hann færir rök fyrir því að jafnaðarmenn – sem hann segir að í heimalandi sínu séu verstir í Demókrataflokknum – hafi svikið vinnandi fólk og lagst í bælið með auðvaldsræðinu. Flestar athugasemdirnar við færsluna gengu út á hugtakajarm – um Demókrata í Ameríku versus demókrata eða „jafnaðarmenn“ í Evrópu (þó ég geri ráð fyrir að flestir viti um hvað höfundurinn er að tala – „jafnaðarmenn“, „kratar“, „sósíaldemókratar“ „demókratar“ með stóru eða litlu d-i – en hin sívinsæla íslenska hefð að „stunda orðheingilshátt og deila um titlíngaskít” klikkar aldrei) – fremur en aðalatriðið, sem er auðvitað hvernig þessi stjórnmálastétt „jafnaðarmanna-krata-sósíaldemókrata-demókrata“ hefur snúið baki við vinnandi fólki og heldur áfram þátttöku í þeim þykjustuleik að óheftur kapítalismi virki flott, þrátt fyrir að öll heimsbyggðin skríði nú í brunarústum þessa sjúka græðgisræðiskerfis. Margir virðast álíta með rósrauðum gleraugum að í Evrópu sé „lýðræðishefð“ versus kapítalíska einræðið í USA, eins og Evrópulönd hafi eins og drifhvít mjöll sloppið við spillingu auðhringaræðisins. Það er deginum ljósara að þeir sem þykjast vera málsvarar vinnandi fólks í dag í þessum „sósíaldemókrata-krataflokkum“ í Evrópu hafa nær allir lagst í bólið með kapítalistum með afleiðingum sem öll heimsbyggðin nú sýpur seyðið af.

Kafli í bók Hedges fjallar um „umsnúna alræðishyggju.“ (sjá annars Er Ísland einræðisríki?)  „Umsnúin alræðishyggja (inverted totalitarianism) er afrakstur af þróun auðhringavaldsins og pólitískri lömun þjóðfélagsþegnanna. Umsnúin alræðishyggja er öðruvísi en sú hefðbundna, sem snýst í kringum lýðskrumara eða einn aðlaðandi leiðtoga. Hún lýsir sér í nafnleysi auðhringaríkisins. Valdhafar að baki umsnúnu alræðishyggjunnar koma ekki með nýtt skipulag í stað hins gamla eða ný tákn eða róttækar breytingar. Auðhringavaldið þykist halda í heiðri hefðbundið lýðræðisfyrirkomulag, frelsi og stjórnarskrá. En auðhringavaldið spillir svo og manipúlerar valdinu að lýðræði er ómögulegt.

Umsnúin alræðishyggja er ekki sett fram sem ákveðin hugmyndafræði, heldur er henni haldið áfram af valdhöfum og þjóðfélagsþegnum sem ekki virðast gera sér grein fyrir afleiðingum aðgerða eða aðgerðaleysis síns. En hún er jafnhættuleg og hefðbundin alræðishyggja. Í umsnúinni alræðishyggju þarf ekki að endurskrifa stjórnarskrána eins og fasískar eða kommúnistastjórnir myndu gera. Það er nóg að misnota lögmætar valdastofnanir, löggjafar- og dómsvald. Þessi misnotkun tryggir að dómstólarnir, mannaðir dómurum sem valdir eru af meðlimum auðvaldsstéttarinnar, dæma að gríðarlegar fjárupphæðir sem auðhringir gefa í kosningasjóði stjórnmálaflokka njóta stjórnarskrárverndar sem „tjáningarfrelsi.“ Ríkið lítur á auðhringi og fyrirtæki sem „persónur.“ Glæpamenn innan þessara stofnana geta komist hjá því að fara í fangelsi með því að borga ríkinu peninga, í „sáttagerðum“ án þess að þurfa að viðurkenna að hafa gert nokkuð rangt af sér. Það er til orð yfir þetta: spilling.“

„Þjóðin á enga stofnun eftir lengur sem unnt er að kalla lýðræðislega í raun. Þjóðfélagsþegnar, í stað þess að hafa raunveruleg áhrif, taka þátt í sýndarlýðræði, eða „þátttökufasisma“ (participatory fascism). Þeir tjá sig um hluti sem engu máli skipta – velja sigurvegara á American Idol eða tjá sig í skoðanakönnunum útbúnum af auðvaldinu. Íbúum Rómaveldis, án nokkurs raunverulegs valds, er leyft að ákveða að þyrma eða láta drepa skylmingaþrælinn á leikvanginum.

„Umsnúin alræðishyggja snýr hlutunum við. Það er alltaf pólitík, en pólitík ósnortin af pólitík. Flokkadrættir eru til sýnis, stöðugt rifrildi og læti og fjölmiðlar fjalla um það eins og íþróttaviðburði. Og auðvitað kosningar, þar sem athygli þjóðarinnar er látin snúast um persónur en ekki raunverulega valkosti. Persónur, en ekki pólitík þar sem við þurfum að finna sameiginlega hagsmunamál okkar í hrærigraut vel fjármagnaðra, skipulagðra hagsmuna sem eru í geðveikislegri sókn eftir greiðasemi ríkisins, þar sem lýðræðishefðum er drekkt í peningasjó…Við ruglum þekkingu saman við niðursoðin svör okkar við þessu ómerkilega kjaftæði. Og… sjálfsritskoðunin sem fjölmiðlar stunda, bæði með- og ómeðvitað, gerir fyrir umsnúnu alræðishyggjuna það sem ruddar og bókabrennur gerðu fyrir einræðisstjórnir fyrri tíma.“

Chris Hedges skrifar reglulega fyrir vefmiðilinn Truthdig.

Auglýsingar
Birt í Stjórnarskráin | Færðu inn athugasemd

Íris Erlingsdóttir á RÚV

Viðtalið á RÚV…

http://www.ruv.is/stjornlagathing/frambjodendur?nr=7968

Birt í Stjórnarskráin | Færðu inn athugasemd

Fjórða valdið – Þjóðfundur

Nýja stjórnarskráin á að endurspegla þau lýðræðislegu gildi sem þjóðin vill halda í hávegum, en einnig einstaka sögu íslensku þjóðarinnar. Til að  ná þessu marki ættum við að endurskapa Íslands merkasta afrek og framlag til stjórnmálasögu heimsins—Alþingi.

Alþingi Íslendinga nú er allt önnur stofnun en það þegar það var stofnað árið 930. Þar til Ísland gekkst Noregskonungi á hönd með Gamla sáttmála árið 1262, var Alþingi sameiginlegt þing íslenska þjóðveldisins og löggjafarsamkoma þess, í raun þjóðfundur, þar sem goðar landsins hittust til að ráða málum landsins. Lögrétta var hin eiginlega löggjafarsamkoma; dómsvald tilheyrði fjórðungsdómum og fimmtardómi Alþingis.

Öll þessi hlutverk hafa nú, eftir kenningunni um þrískiptingu ríkisvaldsins, verið færð í sérstakar, aðskildar stofnanir. En á Íslandi skortir í raun það eftirlit og jafnvægi sem er tilgangur þessarar skiptingar ríkisvaldsins. Í okkar þingbundna kerfi eru fáir fulltrúar raunverulega kosnir af kjósendum. Í núverandi flokksræði  er helsta hagsmunamál fulltrúanna eigin atvinna, en að auki hafa þeir takmörkuð áhrif á stjórnun landins, sem hefur færst á hendur fámenns ráðherraræðis.

Þjóðfundir þessa og síðasta árs þóttust takast með eindæmum vel. Þátttakendur ræddu í hópum þau gildi sem þeir töldu að stjórnarskráin ætti að byggja á og innihald hennar í tengslum við þau. Umræðuefninu var skipt niður í flokka og atkvæði greidd um þau atriði er talin voru mikilvægust og „ný.“ Sérhver hópur samdi svo stuttan úrdrátt um aðalhugmyndir og niðurstöður.

Ég legg til að í stjórnarskrá okkar komum við á „fjórða valdinu“ í svipaðri stofnun sem hefði raunveruleg völd til að fara yfir ákvarðanir ríkisstjórnarinnar. Eins og mál standa nú hefur þjóðin engin tæki til að bregðast við ríkisvaldsaðgerðum sem hún ekki telur vera í sína þágu. Þröngir hagsmunahópar, sérstaklega þeir sem hafa notið góðs af auðlindunum sem tilheyra þjóðinni – eins og útgerðarmenn og álfyrirtæki, hafa ótilhlýðilega getað otað sínum tota í skjóli baktjaldamakks núverandi kerfis.

Hlutverk þessarar stofnunar—sem ég kalla hér Þjóðfund—væri það í hnotskurn að yfirfara allar meiri háttar ákvarðanir ríkisins (lagafrumvörp, reglugerðir, milliríkjasamninga og aðra mikilvæga samninga, útnefningar o.s.frv.), tilgreina þær sem Þjóðfundurinn teldi ekki vera í þágu þjóðarinnar (svo sem óhagstæða orkusamninga og „silfurbakka“einkavæðingaáætlanir) og leggja fyrir dóm landsmanna í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þjóðfundurinn myndi, eins og síðustu tveir þjóðfundir, samanstanda af slembiúrtaki kjósenda úr þjóðskrá. Þátttakendur yrðu valdir eftir starfslok Alþingis og myndu hittast eigi síður en tveimur vikum eftir lok þingsins. Fundartími myndi vera, segjum tvær vikur (mæting yrði skylda eins og kviðdómsskylda í Bandaríkjunum). Eins og fyrr segir yrði aðalverkefni Þjóðfundarins að fara yfir „framleiðslu“ Alþingis og greiða henni atkvæði. Ef Þjóðfundur synjar lagafrumvarpi (eða samningi, útnefningu) samþykkis, fer frumvarpið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðfundur gæti einnig breytt frumvarpi; upprunalega frumvarpið og frumvarpið með breytingum Þjóðfundar yrði þá lagt fyrir þjóðina.

Fyrstu Þjóðfundirnir gætu hugsanlega verið… litríkir, en smátt og smátt myndi stöðugleiki komast á. Við höfum nú þegar afar góða reynslu af tveimur Þjóðfundum. Á þennan máta fáum við það besta úr báðum heimum—fulltrúar okkar munu samanstanda af hópi fólks sem hefur (eða á að hafa) sérfræðilega og  tæknilega kunnáttu á sviði laga og stjórnmála og öðrum hópi sem er þverskurður af allri þjóðinni. Samhliða þessu legg ég einnig til að Alþingismönnum yrði fækkað úr 63 í 37, ekki aðeins myndi það mæta kostnaði við Þjóðfundinn heldur eru Alþingismenn allt of margir.*

Að því er ég best veit hefur bein lýðræðistilraun af þessu tagi ekki verið reynd af heilli þjóð á okkar tímum, en ég held að þetta væri fyrirmyndar stjórnkerfi fyrir Íslendinga. Með tilliti til stærðar—fámennis—okkar myndi Þjóðfundurinn vera verulegur þverskurður af öllum kjósendum landsins og samt vera hópur sem vel gæti unnið saman frá praktísku sjónarmiði. Þar sem hann myndi hittast árlega yrði lítil hætta á lagaóvissu. Þar sem Þjóðfundurinn samanstæði af slembiúrtaki kjósenda sem valið yrði eftir starfslok Alþingis er lítil hætta á spillingu eða ótilhlýðilegu hagsmunapoti.

Þó hugmyndin um „ríkisstjórn Fólksins, af Fólkinu, fyrir Fólkið“ eins ogAbraham Lincoln komst að orði í Gettysburg ræðunni, sé að baki því þingbundna stjórnkerfi sem við höfum notast við sl. 66 ár skortir mikið upp á að kerfi okkar uppfylli þessar kröfur. Of oft hefur ríkisvaldið tekið ákvarðanir sem eru í beinni andstöðu við velferð fólksins í landinu, ákvarðanir sem hafa hagnast aðeins fáum íbúm á kostnað margra. Aðeins með því að skapa nýtt stjórnkerfi þar sem þjóðin sjálf hefur lokaorðið í öllum málum getum við losað okkur úr viðjum þeirrar náhirðarmennsku, fyrirgreiðslupólitíkur og hagsmunapots sem frá fæðingu lýðveldisins hefur þjakað þjóðina.

*Til samanburðar:

íbúar 2010   þingfulltrúar    íbúar per fulltrúa

Ísland       317,440                  63                      5,038

Danmörk 5,4 milljónir          175                    30,857

Svíþjóð     9,325,429             349                    26,720

Noregur   4,9 milljónir          169                     28,994

USA     308 milljónir              535                  575,700

Birt í Stjórnarskráin | Færðu inn athugasemd

Þú hefur aðeins eitt atkvæði, röðun skiptir meginmáli

Þorkell Helgason, frambjóðandi til Stjórnlagaþings, veitti mér góðfúslegt leyfi til að birta þessa ágætu grein sem hann skrifaði og sem útskýrir skilmerkilega fyrirkomulag kosninganna:

Á vefsíðunni kosning.is má finna flipann Kynning á frambjóðendum til stjórnlagaþings. Þar er hægt að tína  til frambjóðendur og raða þeim á hjálparkjörseðil. Kjósendur geta raðað á þennan hjálparseðil hvenær sem tóm gefst til, hann er sjálfkrafa vistaður. Að lokum getur kjósandinn prentað seðilinn út og haft hann með sér á kjörstað. Dvölin í kjörklefanum þarf þá ekki að vera löng; einungis til að færa auðkennistölur af hjálparseðlinum yfir á hinn eiginlega kjörseðil.  Þetta er þakkarvert framtak og hvetja verður kjósendur að nýta sér þetta mikilvæga hjálpartæki.

Á vefsíðunni kemur því miður ekki fram að röð frambjóðenda skiptir meginmáli. Margir muna tína eftirlætisframbjóðendur sína til í stafrófsröð. Þeir raðast þá í þeirri röð á hjálparseðilinn. Þá verður kjósandinn að fara inn í seðilgluggann og endurraða frambjóðendunum í þá forgangsröð sem hann telur rétta.

Því miður er enn mikil misskilningur í gangi um þá kosningaraðferð sem beitt er. Jafnvel lærðir álitsgjafar vaða reyk og villu í þessum efnum í fjölmiðlum. Málið er einfalt:

  • Hver kjósandi hefur aðeins eitt atkvæði, ekki 25.
  • Sá frambjóðandi sem hann raðar efst, að fyrsta vali, fær fyrst að nýta sér atkvæðið. Ef hann kemst inn, en ekki nema rétt svo, er atkvæðið fullnýtt. Hinir sem eru neðar á kjörseðlinum hafa þá ekkert gagn af atkvæðinu.
  • Komist sá efsti inn á ríflegu fylgi færist tilsvarandi vannýttur hluti atkvæðisins til þess sem næst er raðað. Hann getur þá hugsanlega komist inn á þessu atkvæðisbroti.
  • Ef sá sem efst er raðað nær á hinn bóginn ekki kjöri sakir lítils fylgis færistallt atkvæðið til þess sem er valinn að öðru vali.
  • Þetta heldur svo áfram koll af kolli niður eftir kjörseðlinum. Sé kjósandinn svo óheppinn að enginn af þeim sem hann raðar á seðilinn nái kjöri fellur atkvæðið dautt niður.
  • Þeir sem vilja að atkvæði sitt komi að lokum einhverjum góðum frambjóðanda að gagni ættu því að raða sem flestum. Ekki er gefið færi á að raða fleiri en 25, en sú takmörkun hefur ekkert með það að gera að 25 sitja stjórnlagaþingið.
  • Á hinn bóginn er atkvæðið fullgilt hvort sem aðeins er raðað einum, og þá í efstu vallínu, eða 25 eða þar á milli.

Í stuttu máli eru því ráðleggingarnar mínar til kjósenda þessar:

  • Undirbúið ykkur heima og veljið ykkur frambjóðendur af vefnum eða eftir prentuðum upplýsingum sem dreift verður í hús.
  • Raðið eins mörgum frambjóðendum og þið frekast treystið ykkur til, en munið eftir því að skipa þeim í forgangsröð; hún skiptir meginmáli.
  • Skundið síðan á kjörstað og gerið kosninguna glæsilegan sigur fyrir lýðræðið.
Birt í Stjórnarskráin | Færðu inn athugasemd

Siðgæði í stjórnarskrá?

Mikið verk bíður þjóðarinnar ef við viljum breyta landi okkar og stjórnkerfi í  samræmi við niðurstöður nýafstaðins þjóðfundar.

Spurningin, sem stjórnlagaþing þarf að svara, er hvað af þessum niðurstöðum, þessum gildum, á heima í stjórnarskránni?

Hver er tilgangur stjórnarskrár? Orðið stjórnarskrá og enska orðið constitution merkir „kerfi grundvallarreglna eftir hverjum þjóð, ríki, fyrirtæki eða þess háttar, er stjórnað; skjalið sem geymir þessar grundvallarreglur.“  Enska orðið constitution er dregið af latneska orðinu constitutio, so. constituere, sem þýðir að stofna, setja saman.  Eða eins og einn bandarískur lögskýrandi sagði við mig: Tilgangur stjórnarskrárinnar „is to constitute the government“; tilgangur stjórnarskrár er að setja saman (ríkis)stjórnina.  Stjórnarskráin á að geyma fyrirmæli um það kerfi sem þjóðinni er stjórnað eftir.

Ekki hvernig stjórna skuli því í huglægum skilningi, vel eða illa, eftir íhaldspólitík eða frjálslyndri pólitík eða að setja reglur um hvað sé rétt eða rangt, hvað sé gegn eða samkvæmt góðu siðferði.

Stjórnarskráin er skjal sem á að duga þjóðinni lengi – löngu eftir að við erum komin undir græna torfu. Ég er ekki viss um að það fari vel á því að lista mórölsk prinsipp í stjórnarskránni. Í fyrsta lagi eru hugmyndir okkar um hvað telst gott og gilt siðferði afar mismunandi. Ekki aðeins eru þær breytilegar frá einni öld eða einum áratug til annars, heldur er það  mjög umdeilt meðal okkar sem lifum á sama tíma hvað telst ákjósanlegt siðferði.

Hvernig á að mæla „heiðarleika“ eða „siðferði“ kjörinna fulltrúa eða embættismanna? Hver á að gera það? Ekki fer alltaf saman gott „siðferði“ og góðir stjórnunareiginleikar. Sennilega er ekki hægt að segja að Bill Clinton hafi gott „siðferði“, en hann var alveg þokkalegur forseti.

Stjórnarskráin á hins vegar að búa yfir tækjum sem tryggja að leiðtogar þjóðarinnar séu heiðarlegir og búi yfir góðu siðgæði eins og meirihluti kjósenda vill hafa það á hverjum tíma. Þessi tól eru m.a.: Frjálsar kosningar, tjáningarfrelsi og gegnsæi.  Ef allt þetta þrennt er til staðar og haft í hávegum – en mikið vantar upp á að svo sé á Íslandi – á að vera hægt að kjósa heiðarlega leiðtoga.

Ef gegnsæi er til staðar vitum við hvaða kjörnir fulltrúar voru í peningasukki í bankapartíinu, en þar sem gegnsæi skortir vitum við lítið um það.  Við vitum heldur ekki hvort eða hvaða kjörnir fulltrúar hafa ef til vill hagnast persónulega á samningum við álversrisana, því þeir eru líka leyndó. Skítalykt, eh? Ef raunverulegt tjáningarfrelsi væri til staðar þyrftu blaðamenn ekki að hafa áhyggjur af hótunum þegar þeir reyna að upplýsa almenning um það sem þó er vitað er um ómóralska hegðun valdastétta þjóðfélagsins; fólk þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því að missa vinnuna eða verða fyrir annars konar óþægilegum afleiðingum ef það segir frá ótilhlýðilegri eða ólögmætri hegðun einhvers í áhrifastöðu. Íslensk lög heimila líka að henda fólki í fangelsi fyrir það að móðga samborgara sína. Dálítill dampur á tjáningarfrelsið, eh?

„Ísland er málsvari friðar…“ Þetta er að sjálfsögðu gott mál en ég veit ekki hvort það á heima í stjórnarskránni. Hvað myndi slíkt ákvæði þýða, praktískt séð? Yrðum við að segja okkur úr NATÓ, því það er hernaðarbandalag? Við berum ákveðnar skyldur samkvæmt þeim samningi. Að ofbeldi sé bannað? Ekki misskilja þetta, ég er mikill friðarsinni, en ég er bara að hugsa upphátt… Maður er friðelskandi…þar til maður er það ekki! Hvað ef Hollendingar eða Bretar færu að dæmi Tyrkja, sigldu inn í Reykjavíkurhöfn og færu að ræna, drepa og nauðga? Yrðum við að láta þá lemja okkur í spað af því að stjórnarskráin fyrirskipar frið? (gagnályktun er þá að ofbeldi er bannað). Ég er meira að leika agent andskotans hér heldur en að leggja til að þetta sé raunhæfur möguleiki, en…

“Tryggja skal jafnræði fyrir lögum óháð kyni, trú, þjóðerni, kynþætti, búsetu og kynhneigð.” Ég held að betra sé að sleppa þessari upptalningu, enda er þá engin hætta á gagnályktunum.  Í 14. Amendment bandarísku stjórnarskrárinnar segir: „ No State shall… deny to any person within its jurisdiction the equal protection of the laws.” Ekkert ríki…má innan sinnar lögsögu neita nokkurri persónu jafnræðis fyrir lögum.”  Lykilorðið hér er persóna. Lifandi, andandi mannvera. Ergo, ekki dýr (hundur, köttur, fiskur), og nota bene ekki tilbúinn lögaðili eins og hlutafélag eða fyrirtæki og ég sé ástæðu til þess að taka sérstaklega fram í stjórnarskránni að réttindi hennar nái aðeins til lifandi, andandi einstaklinga. Það er einfalt að gagnálykta út frá því. Hlutafélög og fyrirtæki eru ekki lifandi, andandi homo sapiens.

Semsagt, stjórnarskráin á ekki að segja fyrir um hvað sé siðferðilegt eða heiðarlegt, eða að mæla fyrir um hvernig ákveðnir einstaklingar eiga að haga sér, né getur hún veitt svör við öllum vandamálum sem hugsanlega geta komið upp í framtíðinni. Ásamt því að tryggja grundvallar réttindi þegnanna á stjórnarskráin að mæla fyrir um stjórnskipan ríkisins, hvernig ríkisvaldinu er skipað, hverjir fara með það og geyma tól sem gera okkur kleift að kjósa leiðtoga sem búa yfir þeim mannkostum sem við viljum að þeir hafi, og úrræði sem sem við getum gripið til þegar þessir leiðtogar okkar bregðast skyldu sinni samkvæmt stjórnarskránni og landslögum. (Sjá hér t.d. Art.2.sect.4 í bandarísku stjórnarskránni: „The President, Vice President and all civil Officers of the United States, shall be removed from Office on Impeachment for, and Conviction of, Treason, Bribery, or other high Crimes and Misdemeanors.”).

Reyndar finnst mér þessar niðurstöður þjóðfundarins, kröfurnar um siðgæði og heiðarleika athyglisverðar í ljósi þeirra staðreynda sem blasa við í stjórnkerfi þjóðarinnar, því við höldum áfram að kjósa yfir okkur stjórnmálamenn sem við vitum – eða ættum að vita – að þjóna þröngum sérhagsmunahópum í stað þess að hafa  bestu hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.

Vilji þjóðarinnar kemur fram í þeirri ríkisstjórn sem þjóðin, á hverjum tíma, kýs sér og ef fólkið telur að ákveðin siðferðileg gildi séu þeim mjög mikilvæg, þá kýs það þá fulltrúa sem halda þau gildi í hávegum. Það má því eiginlega segja að siðferði þjóðarinnar endurspeglist í þeim fulltrúum sem hún kýs sér. Eða eins og franski heimspekingurinn og stjórnmálamaðurinn Joseph M. de Maistre sagði: Sérhver þjóð hefur þá ríkisstjórn sem hún verðskuldar.

Birt í Stjórnarskráin | Færðu inn athugasemd

Er Ísland alræðisríki?

(Greinin birtist fyrst á Huffington Post 2. júlí, 2010.)

Spurningin virðist fjarstæðukennd.

Ég hef  alltaf ímyndað mér að alræðisríki væru eins og Þýskaland Hitlers eða Sovétríki Stalíns, en sennilega er  áhrifamesta alræðisstjórnin sú sem enginn (utan hennar, a.m.k.) myndi þekkja sem slíka. Eins og froskurinn frægi í súpupottinum myndum við ekki taka eftir hvernig landsföðurleg valdsstétt smám saman tryði á réttindum okkar – í okkar „eigin þágu“ að sjálfsögðu – fyrr en það væri orðið of seint.

Á yfirborðinu virðist Ísland hafa á sér villta-vestursbrag.  Við stærum okkur af því að vera „sjálfstætt fólk“ sem trúir, eins og Halldór Laxness ritaði, að „Íslendingar eru gömul sjálfstæðis- og frelsisþjóð… þessi frelsisþrá, hún liggur í blóðinu… Ísland er upphaflega byggt af frjálsbornum höfðingjum sem vildu heldur lifa og deyja út af fyrir sig en þjóna erlendum konungi.“

En þetta einkenni okkar virðist vera í útrýmingarhættu. Ekki vegna umsóknar að ESB, eins og margir álíta. Nei, þessi uppgjöf einstaklingsréttinda hefur lengi verið í gerjun og við erum sjálf algjörlega ábyrg fyrir uppskriftinni.

Alræði er stjórnkerfi þar sem ríkið viðurkennir engin höft á eigin valdi og reglugerir öll svið opinbers og einkalífs: “…litlum kjarna manna með sterkan leiðtoga í broddi fylkingar er ætlað að stjórna… réttu leiðtogarnir… hafa vit fyrir þegnunum og skynja hvað fólkinu er fyrir bestu.”[1] J.L. Talmon notaði hugtakið „alræðislýðræði“ til að lýsa stjórnkerfi þar sem löglega kosnir fulltrúar halda saman þjóð þegna sem þrátt fyrir kosningarétt hafa lítil sem engin áhrif á ákvarðanatökur  stjórnvalda

Íslandi hefur frá upphafi verið stjórnað af fámennum valdaklíkum, sem tekið hafa allar mikilvægar ákvarðanir fyrir hönd þjóðarinnar. Völd Kolkrabbans fræga hafa dvínað, en bankarnir, fjármálageirinn og stjórnmálaflokkarnir halda áfram að þjóna sjálfkjörinni yfirstétt.

Á undanförnum áratugum höfum við horft upp á ríkisstjórnir færa fámennum (og óhæfum) forréttindahópi auðlindir okkar og stofnanir á silfurbakka. Stjórnvöld hafa ákveðið að við skyldum nota gífurlegar orkuauðlindir okkar til að knýja álver – okkur kemur ekki við hvaða verði þessi auður okkar er seldur. Umdeildar  breytingar  á vatnalögum myndu stórauka réttindi landeigenda á kostnað almennings.

Allt þetta gerir Ísland hugsanlega að þjófræði, en ef til vill ekki alræði. Í raun virðist sem við höfum meiri einstaklingsréttindi en nokkru sinni fyrr. Samkynhneigðir hafa rétt til að ganga í hjónaband, þrátt fyrir andstöðu þjóðkirkjunnar. Landið gæti orðið griðastaður frjálsar fjölmiðlunar ef löggjöf  þess efnis nær fram að ganga. Okkur er frjálst að koma og fara að vild, ríkið hlerar ekki samskipti okkar og svo mætti lengi telja.

Þegnarnir hafa hins engin áhrif á ákvarðanatökuferli framkvæmdavaldsins. Þó þjóðin hafi leyst út bankana eftir hrunið hefur hún ekkert um stjórnun þeirra að segja. Þó bankarnir hafi afskrifað lán upp á þúsundir milljarða fáum hvorki við né þingmenn okkar marktækar upplýsingar um hverjir hafi notið þessarar gjafmildi þjóðarinnar.

Meðlimir fjármálakartelsins sem leiddi þjóðina í glötun sitja enn í stjórnum stærstu fyrirtækja og stofnana. Stjórnmála- og embættismenn sem sátu yfir spillingunni og vanhæfninni eru enn í áhrifastöðum. Fjölmiðlarnir, klappstýrur auðvaldsherranna, eru á sama stað og áður.

Restin af þjóðinni – sem var svo auðtrúa að gleypa við fréttaflutningi þeirra af íslenskum yfirburðum – sekkur hins vegar æ dýpra undir járnhælinn. Nýlega var okkur sagt að enn einu sinni væri hið dýrmæta, úttútna bankakerfi þjóðarinnar í hættu vegna Hæstaréttardómanna sem ógiltu gengistryggðu lánin.  Stjórnvöld ákváðu því að hinir (ókjörnu) regluverks- og eftirlitsaðilar– sem í sínum stórbrotna atgervisskorti yfirsást það hlutverk sitt að stöðva þessi ólöglegu lán til að byrja með – hafi einhvern veginn rétt til þess að ákvarða lánskjörin í þessum einkaréttarlegu samningum.

Ef ríkið getur endurskrifað þessa samninga (í „almannaþágu,“ að sjálfsögðu), hvers vegna þá ekki aðra samninga? Ef verslun er í fjárhagsvanda vegna þess að kaupmaðurinn reiknaði ekki nógu háa álagningu til að skila hagnaði, mun ríkið þá neyða viðskiptavini verslunarinnar til að borga afturvirkt verð sem einhver embættismaður ákveður að kaupmaðurinn hefði átt að krefjast fyrir vörur sínar? Ef verksmiðja sér fram á gjaldþrot vegna kostnaðar við lagfæringu gallaðrar vöru mun ríkið ákveða að upphaflegt verð vörunnar hafi verið of lágt og senda öllum kaupendum reikning fyrir viðbótargreiðslu?

Ein af hetjum nýfrjálshyggjunnar, F.A. Hayek, ritar í Leiðin til ánauðar að miðstjórn efnahagsmála muni óhjákvæmilega leiða til alræðis því markmið ríkisins krefjist skjótra og afgerandi aðgerða. Í lýðræði sé þetta ferli of hægfara svo vald ríkisins til gerræðislegrar ákvarðanatöku muni aukast. Þrátt fyrir að aðalhlutverk ríkisins ætti að takmarkast við að tryggja lög og reglu– og í lagasafni Alþingis eru engin lög sem tryggja að bankar eigi alltaf að hagnast á lánastarfsemi eða sem heimila ríkinu að endurskrifa einkaréttarsamninga– er það takmarkaða hlutverk á skjön við þá trú stjórnvalda að gjaldþrot banka muni valda efnahagskerfi landsins óbætanlegu tjóni.

Það er ekki eins og ekki séu til aðrar lausnir á þessu vandamáli. Stefna má lögmanni fyrir tjón (sbr. 25. gr. l. 77/1998) sem hlýst af því að hann af vanrækslu leggur blessun sína yfir ólögmætan samning (ástæðan fyrir tilvist starfsábyrgðartryggingar). Ef unnt er að neyða lántakendur til að greiða, afturvirkt, hærri vexti, hvers vegna þá ekki að draga þá aðila innan bankanna til ábyrgðar sem kokkuðu upp þessa lánastarfsemi og seldu viðskiptavinum og láta þá endurgreiða gjöld, kostnað og bónusa sem þeir fengu fyrir vikið?

Íslensk stjórnvöld trúa því að rekstrarerfiðleikar bankanna muni valda heimsenda (þau  virðast einnig á þeirri skoðun að bankar, ólíkt öðrum fyrirtækjum á hinum frjálsa markaði sem hafa tækifæri til að hagnast, eigi að hafa gulltryggðan rétt til að tapa aldrei peningum). Undir eðlilegum kringumstæðum ætti hrun kapítalismans að hafa leitt af sér stofnun nýrra banka undir stjórn hæfra stjórnenda með viðunandi móralska áttavita, en óbilandi stuðningur ríkisins við þessar misheppnuðu stofnanir – þrátt fyrir langvarandi vanhæfni og siðleysi  stjórnenda þeirra, lögmanna og annarra vitorðsaðila – hefur í raun lamað alla samkeppni og nýsköpun.

Þetta er einmitt hættan í alræðislýðræði. Embættismenn ríkisins, sem trúa að þeir einir búi yfir hinum  fullkomna pólitíska sannleika, sem allar skynsamlegar mannverur ættu að vera sammála um, álíta það skyldu sína að grípa til hvaða aðgerða sem þeir álíta nauðsynlegar til að ná markmiðum sínum. Þó sennilega séu flestir Íslendingar sammála yfirlýsingu AGS þess efnis að íslenska bankakerfið sé enn allt of stórt, virðist það vera aðalmarkmið fjármálastofnana ríkisins að tryggja óskoruð yfirráð bankanna yfir íslensku þjóðfélagi.

„Maður er þó ævinlega sjálfstæður maður heima í kotinu sínu“ segir Bjartur í Sumarhúsum. „Hvort sem   maður lifir eða drepst, þá kemur það öngvum við utan manni sjálfum… í því álít ég að sjálfstæðið sé fólgið.“     Bankarnir eiga veð í heimilum okkar flestra og nota vald sitt til að tryggja að verð þeirra haldist himinhátt svo öruggt sé að við munum aldrei eignast þau. Við vinnum eins og skepnur til að borga óforsvaranlega háar verðtryggðar (sem tíðkast hvergi á byggðu bóli nema hér) lánaafborganir, við verjum frítíma okkar í að glápa á fjölmiðla bankakartelsins og kjósum bólfélaga  bankanna á þing.

Jú, við höfum frjálsar kosningar, en eins og Herbert Marcuse benti á, „Frjálsar kosningar húsbændanna útrýma hvorki þeim né þrælunum.“ Jú, við höfum tjáningarfrelsi, en það er temprað af hvísli um að eins gott sé að þú gætir að „hvað þú segir,“ eða þú færð ekki vinnuna eða lánið eða styrkinn, gleymdu því að komast í áhrifastöður. Jú, við höfum réttindi og frelsi, meðan þau ekki standa í vegi markmiðanna að ofan.

Ekki er útilokað að Búsáhaldabyltingin og sveitastjórnarkosningarnar hafi verið vísbendingar um  nýja tíma, en  áframhaldandi vinsældir hrunsflokkanna – eins og áframhaldandi vinsældir Stalíns í Rússlandi – benda til þess að mörgum finnist afsal einstaklingsábyrgðar (og frelsis) gegn sýndaröryggi föðurlegrar  valdsherrastéttar  vera viðunandi skipti.

Íris Erlingsdóttir er fjölmiðlafræðingur


[1] Vísindavefur H.Í.

Birt í Stjórnarskráin | Ein athugasemd

Magma: druslugangurinn

Ég var að horfa í tölvunni minni á viðtal Þórhalls Gunnarssonar við Björk Guðmundsdóttur – rétt eftir að ég talaði við Láru Hönnu, sem fékk pokann sinn á RÚV af ástæðum sem Lára Hanna telur að hafi með óvæga umfjöllun hennar um Magma og HS Orku að gera.

Íslenskir fjölmiðlar virðast eiga eitthvað voðalega erfitt að fjalla á gagnrýninn hátt um þetta Magma mál. Ég reyndi hvað eftir annað í sumar að fá birta stutta grein um málið á skoðanasíðum dagblaðanna, en án árangurs. Á endanum birti Reykjavík Grapevine (sem er á ensku!) greinina og ég setti hana á eyjubloggið mitt. En það er langt í frá það sama og að komast í blöðin (Fréttablaðið var ógurlega upptekið á þessum tíma að birta 1700 orða langar greinar, hverja á fætur annarri, eftir einn ráðherrann).

Segja má að nokkrir stærstu vankantar íslensks stjórnkerfis (sem ég hef margoft fárast yfir á prenti)  kristallist í þessu máli. Stefnuleysi: Vanhæfni, vangeta og bara hreinlega druslugangur íslenskra stjórnmálamanna að móta engar raunverulegar stefnur fyrir þjóðina, hvorki í orkumálum, né atvinnumálum. Suðurnesin vantar atvinnu, alla vantar atvinnu. Þá er rokið til og flotti bíllinn okkar sem er 5 milljón króna virði er seldur á tíu þúsund kall af því okkur vantar pening núna.

Bananalýðveldisháttur varðandi upplýsingar um sameiginleg mál þjóðarinnar, samninga er ríkið gerir fyrir hönd þjóðarinnar: okkur á ekki að koma við hvað stendur í samningunum, sama hvort þeir eru við útlenda skúffu eða álfyrirtæki! (Samningar Alcoa við bandarísk bæjarfélög um orkusölu eru… á vefsíðu bæjarfélagsins!).

Íslenska stjórnmálastéttin er ófær, ég endurtek ÓFÆR um að stjórna landinu í þágu landsmanna. Hún hefur aldrei stjórnað því með neina aðra hagsmuni en sína eigin að leiðarljósi. Það er sami rassinn undir öllum íslenskum stjórnmálamönnum, með örfáum undantekningum.  Gerið þið það, látið ykkur hverfa. Plís. Bæ bæ nú, allir fara í langt frí, ekki koma aftur!

Birt í Stjórnarskráin | Færðu inn athugasemd

Dauði jafnaðarmannastéttarinnar

Í hefðbundnum lýðræðum er það hlutverk jafnaðarmannastéttarinnar  að virka sem öryggisventill.  Stétt jafnaðarmanna hefur smátt og smátt komið þjóðfélagsumbótum til leiðar.  Jafnaðarmenn hafa tekið framfaraskrefin í átt til aukins jafnræðis og verið boðberar vona um breytingar og betri tíð.  Stétt jafnaðarmanna hefur einnig þjónað hlutverki „árásarhundsins“ á öfgafullar þjóðfélagshreyfingar, hlutverk sem gefur henni notagildi innan valdaelítunnar.

En jafnaðarmannastéttin virðist hafa látið lífið í árásarherferð auðhringaræðisins á lýðræðið. Auðhringaræðið gleymdi að jafnaðarmannastéttin, þegar hún virkar, gefur valdastéttinni lögmæti.  Og þegar jafnaðarmannastéttin er gerð einfaldlega að auðvaldshirð, sem hefur ekkert upp á að bjóða nema innantómt orðagjálfur, slökknar á þessum öryggisventli og óánægja innan þjóðfélagsins verður að finna útrás annars staðar, oft í formi ofbeldis.

Vangeta jafnaðarmannastéttarinnar til að viðurkenna að auðhringir hafa hrifsað valdið úr höndum borgarana, að Stjórnarskráin og ákvæði hennar sem tryggja eiga frelsi einstaklingsins eru orðin marklaus, og að „samþykki borgaranna“ hefur heldur enga þýðingu, hefur gert það að verkum að aðgerðir stéttarinnar og orð eru ekki lengur í samræmi við raunveruleikann.  Jafnaðarmenn hafa lánað rödd sína innantómum pólitískum leikaraskap, og þau þykjustulæti að lýðræðisleg umræða og raunverulegir valkostir standi borgurunum enn til boða halda áfram.

Jafnaðarmannastéttin neitar að viðurkenna hið augljósa því meðlimir hennar vilja ekki missa sín vellaunuðu og þægilegu fríðindi.  Kirkjur og háskólar njóta skattfríðinda og starfsmenn þeirra njóta starfsöryggis meðan þeir halda sig á mottunni. Verkalýðsleiðtogar eru á forstjóralaunum og eru í félagi við auðhringakapítalistana svo lengi sem þeir minnast ekki á stéttabaráttu. Stjórnmálamenn, eins og herforingjar, eru trúir kröfum auðvaldsræðisins og þegar þeir hætta í pólitík bíða þeirra milljónamæringastöður sem þrýstihópahórur eða yfirmenn innan einhvers auðhringsins. Listamenn, sem nota hæfileika sína til að framleiða goðsagnir og blekkingar, lifa þægilegu lífi í Hollywoodhæðum.

Fjölmiðlar, háskólar, kirkjan, Demókratar, listamenn og verkalýðsfélög – máttarstólpar jafnaðarmannastéttarinnar – hafa verið keyptir með peningum auðvaldsins og loforðum um brauðmola frá þröngum valdaklíkum.  Fréttamenn, sem meta meir aðgang að hinum valdamiklu en þeir meta sannleikann, bera á borð lygar og áróður svo hægt sé að reka stríð í Írak. Margir þessara sömu fréttamanna fullvissuðu okkur um að það væri skynsamlegt að setja ævisparnað okkar í peningakerfi spákaupmanna og og þjófa.  Fjölmiðlar, til að þóknast auðhringaauglýsendum og styrktaraðilum, hunsa almenning í fátækt, eymd og óréttlæti sem ætti að vera aðalumfjöllunarefni fjölmiðla.

Háskólar hvetja ekki lengur nemendur sína til að hugsa gagnrýnt, til að rannsaka og gagnrýna valdakerfi og pólitískar og menningarlegar forsendur, til að spyrja hinna stóru spurninga hugvísindanna um tilgang og siðferði. Þessar stofnanir hafa umbreytt sjálfum sér í verknámsskóla; þær eru útungunarvélar fyrir kerfisstjóra sem þjálfaðir eru til að þjóna auðhringaræðinu, sem  í Faustísku samkomulagi pumpar fjármagni inn í skólana og þær deildir þeirra sem auðvaldinu eru þóknanlegar.  Rektorum eru greidd ofurlaun eins og þeir væru forstjórar risafyrirtækja og engu máli skiptir hvort þeir hafa eitthvað vit á menntun; bara að þeir geti aflað fjár.  Í skiptum þegja skólarnir þunnu hljóði um auðhringaræðið en fordæma einnig sem „pólitíska“ alla þá innan veggja sinna sem voga sér að gagnrýna afglöp auðvaldsins og bruðl og óhóf óhefts kapítalisma.

Verkalýðsfélög, samtök sem áður lögðu áherslu á stéttabaráttu, með meðlimi sem börðust fyrir víðtækum félagslegum og pólitískum réttindum til handa verkafólki, eru orðin heimaaldir samningafélagar kapítalistanna. Kröfur verkalýðsfélaganna í byrjun 20. aldar, sem veittu verkafólki réttindi eins og helgarfrí, átta stunda vinnudag, rétt til að fara í verkfall, lífeyrisréttindi – allt þetta heyrir sögunni til. Háskólar, sérstaklega stjórnmálafræði- og hagfræðideildir, gagga enn um hina misheppnuðu hugmyndafræði kapítalismans og hafa engar nýjar hugmyndir. Listirnar, alveg jafn gráðugar og fjölmiðlar og menntastofnanir í auðhringafjármagn og styrktaraðila, neita að fjalla um ójöfnuðinn , fátæktina og þrengingarnar sem stór hluti þjóðfélagsþegna býr við.  Vinsælir listamenn selja  goðsögnina úr áróðursmaskínu auðhringanna, sjálfshjálparprédikara, Oprah og hægrisinnaðra ofstækispresta, að ef við bara köfum nógu djúpt í okkur sjálf, einblínum á hamingjuna, finnum okkar innri styrk og trúum á kraftaverk getum við fengið allt sem við viljum.

Töfrahugsun sem þessi, sem er aðaleinkenni skemmtanaiðnaðarins, hefur blindað augu almennings fyrir auðhringakerfinu sem gerir fjölskyldum ókleift að vinna sig út úr fátækt eða lifa sómasamlegu lífi. En verstur af öllum máttarstólpum jafnaðarmannastéttarinnar er Demókrataflokkurinn.

Flokkurinn seldi sig, meðvitað, fyrir auðhringafjármagn. Bill Clinton, sem sagði að verkafólk ætti ekki í nein hús að venda nema til Demókrata, kom í gegn NAFTA samkomulaginu árið 1994, sem voru svik við verkafólk. Hann hélt áfram og eyðilagði velferðarkerfið og árið 1999 reif hann niður varnarmúrana milli venjulegra viðskiptabanka og fjárfestingarbanka og afhenti spákaupmönnum og þjófum bankakerfið.  Barack Obama, sem aflaði  meira en $600 milljónum til að bjóða sig fram til forseta, mest frá auðhringum, hefur þjónað hagsmunum þeirra jafn nostursamlega og flokkur hans.  Hann hefur haldið áfram að ræna ríkissjóð fyrir hönd auðvaldsins, neitað að aðstoða milljónir Bandaríkjamanna sem misst hafa heimili sín og hefur ekkert gert til að taka á eymd hinna atvinnulausu, sem nú eru orðnir að  viðvarandi þjóðfélagsstétt.

Þjóðfélög munu þola kúgun harðstjóra meðan þessir stjórnendur nota vald sitt á virkan hátt. En saga mannkyns hefur sýnt að þegar valdhafar verða getulausir, þegar þeim er ofaukið, en þegar þeir halda samt áfram að krefjast skrautklæða og forréttinda valdsins, munu þegnarnir losa sig við þá á grimmilegan hátt.

Slík örlög bíða jafnaðarmannastéttarinnar, sem krefst þess að hanga í forréttindastöðum sínum en neitar á sama tíma að taka alvarlega sitt hefðbundna hlutverk innan lýðræðisins.  Jafnaðarmannastéttin er orðin að einskisnýtri, fyrirlitlegri viðhengistutlu auðvaldsins. Og um leið og auðvaldið mengar og eitrar vistkerfið og knýr okkur áfram inn í heim þar sem aðeins eru húsbóndar og þrælar, verður jafnaðarmannastéttin – sem þjónar engum tilgangi í því nýja kerfi – yfirgefin og henni fleygt til hliðar. Dauði jafnaðarmanna þýðir að enginn er til staðar til að halda í skefjum auðhringabatteríi sem hannað er til að ræna þjóðina í þeim tilgangi að auðga fámenna valdastétt.  Áhrifalaus jafnaðarmannastétt þýðir að það er engin von, ekki nokkur einasta, um leiðréttingu eða gagngerar breytingar. Dauði jafnaðarmannstéttarinnar þýðir að öruggt verður að vonbrigði og reiði verkafólks og millistéttarinnar munu fá útrás utan marka hefðbundinna stofnana lýðræðisins.

Úr bókinni Death of the Liberal Class eftir Chris Hedges ©2010. Viðtal við Chris Hedges á Talk Of The Nation, NPR, 15.11.10

Birt í Stjórnarskráin | Færðu inn athugasemd