Siðgæði í stjórnarskrá?

Mikið verk bíður þjóðarinnar ef við viljum breyta landi okkar og stjórnkerfi í  samræmi við niðurstöður nýafstaðins þjóðfundar.

Spurningin, sem stjórnlagaþing þarf að svara, er hvað af þessum niðurstöðum, þessum gildum, á heima í stjórnarskránni?

Hver er tilgangur stjórnarskrár? Orðið stjórnarskrá og enska orðið constitution merkir „kerfi grundvallarreglna eftir hverjum þjóð, ríki, fyrirtæki eða þess háttar, er stjórnað; skjalið sem geymir þessar grundvallarreglur.“  Enska orðið constitution er dregið af latneska orðinu constitutio, so. constituere, sem þýðir að stofna, setja saman.  Eða eins og einn bandarískur lögskýrandi sagði við mig: Tilgangur stjórnarskrárinnar „is to constitute the government“; tilgangur stjórnarskrár er að setja saman (ríkis)stjórnina.  Stjórnarskráin á að geyma fyrirmæli um það kerfi sem þjóðinni er stjórnað eftir.

Ekki hvernig stjórna skuli því í huglægum skilningi, vel eða illa, eftir íhaldspólitík eða frjálslyndri pólitík eða að setja reglur um hvað sé rétt eða rangt, hvað sé gegn eða samkvæmt góðu siðferði.

Stjórnarskráin er skjal sem á að duga þjóðinni lengi – löngu eftir að við erum komin undir græna torfu. Ég er ekki viss um að það fari vel á því að lista mórölsk prinsipp í stjórnarskránni. Í fyrsta lagi eru hugmyndir okkar um hvað telst gott og gilt siðferði afar mismunandi. Ekki aðeins eru þær breytilegar frá einni öld eða einum áratug til annars, heldur er það  mjög umdeilt meðal okkar sem lifum á sama tíma hvað telst ákjósanlegt siðferði.

Hvernig á að mæla „heiðarleika“ eða „siðferði“ kjörinna fulltrúa eða embættismanna? Hver á að gera það? Ekki fer alltaf saman gott „siðferði“ og góðir stjórnunareiginleikar. Sennilega er ekki hægt að segja að Bill Clinton hafi gott „siðferði“, en hann var alveg þokkalegur forseti.

Stjórnarskráin á hins vegar að búa yfir tækjum sem tryggja að leiðtogar þjóðarinnar séu heiðarlegir og búi yfir góðu siðgæði eins og meirihluti kjósenda vill hafa það á hverjum tíma. Þessi tól eru m.a.: Frjálsar kosningar, tjáningarfrelsi og gegnsæi.  Ef allt þetta þrennt er til staðar og haft í hávegum – en mikið vantar upp á að svo sé á Íslandi – á að vera hægt að kjósa heiðarlega leiðtoga.

Ef gegnsæi er til staðar vitum við hvaða kjörnir fulltrúar voru í peningasukki í bankapartíinu, en þar sem gegnsæi skortir vitum við lítið um það.  Við vitum heldur ekki hvort eða hvaða kjörnir fulltrúar hafa ef til vill hagnast persónulega á samningum við álversrisana, því þeir eru líka leyndó. Skítalykt, eh? Ef raunverulegt tjáningarfrelsi væri til staðar þyrftu blaðamenn ekki að hafa áhyggjur af hótunum þegar þeir reyna að upplýsa almenning um það sem þó er vitað er um ómóralska hegðun valdastétta þjóðfélagsins; fólk þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því að missa vinnuna eða verða fyrir annars konar óþægilegum afleiðingum ef það segir frá ótilhlýðilegri eða ólögmætri hegðun einhvers í áhrifastöðu. Íslensk lög heimila líka að henda fólki í fangelsi fyrir það að móðga samborgara sína. Dálítill dampur á tjáningarfrelsið, eh?

„Ísland er málsvari friðar…“ Þetta er að sjálfsögðu gott mál en ég veit ekki hvort það á heima í stjórnarskránni. Hvað myndi slíkt ákvæði þýða, praktískt séð? Yrðum við að segja okkur úr NATÓ, því það er hernaðarbandalag? Við berum ákveðnar skyldur samkvæmt þeim samningi. Að ofbeldi sé bannað? Ekki misskilja þetta, ég er mikill friðarsinni, en ég er bara að hugsa upphátt… Maður er friðelskandi…þar til maður er það ekki! Hvað ef Hollendingar eða Bretar færu að dæmi Tyrkja, sigldu inn í Reykjavíkurhöfn og færu að ræna, drepa og nauðga? Yrðum við að láta þá lemja okkur í spað af því að stjórnarskráin fyrirskipar frið? (gagnályktun er þá að ofbeldi er bannað). Ég er meira að leika agent andskotans hér heldur en að leggja til að þetta sé raunhæfur möguleiki, en…

“Tryggja skal jafnræði fyrir lögum óháð kyni, trú, þjóðerni, kynþætti, búsetu og kynhneigð.” Ég held að betra sé að sleppa þessari upptalningu, enda er þá engin hætta á gagnályktunum.  Í 14. Amendment bandarísku stjórnarskrárinnar segir: „ No State shall… deny to any person within its jurisdiction the equal protection of the laws.” Ekkert ríki…má innan sinnar lögsögu neita nokkurri persónu jafnræðis fyrir lögum.”  Lykilorðið hér er persóna. Lifandi, andandi mannvera. Ergo, ekki dýr (hundur, köttur, fiskur), og nota bene ekki tilbúinn lögaðili eins og hlutafélag eða fyrirtæki og ég sé ástæðu til þess að taka sérstaklega fram í stjórnarskránni að réttindi hennar nái aðeins til lifandi, andandi einstaklinga. Það er einfalt að gagnálykta út frá því. Hlutafélög og fyrirtæki eru ekki lifandi, andandi homo sapiens.

Semsagt, stjórnarskráin á ekki að segja fyrir um hvað sé siðferðilegt eða heiðarlegt, eða að mæla fyrir um hvernig ákveðnir einstaklingar eiga að haga sér, né getur hún veitt svör við öllum vandamálum sem hugsanlega geta komið upp í framtíðinni. Ásamt því að tryggja grundvallar réttindi þegnanna á stjórnarskráin að mæla fyrir um stjórnskipan ríkisins, hvernig ríkisvaldinu er skipað, hverjir fara með það og geyma tól sem gera okkur kleift að kjósa leiðtoga sem búa yfir þeim mannkostum sem við viljum að þeir hafi, og úrræði sem sem við getum gripið til þegar þessir leiðtogar okkar bregðast skyldu sinni samkvæmt stjórnarskránni og landslögum. (Sjá hér t.d. Art.2.sect.4 í bandarísku stjórnarskránni: „The President, Vice President and all civil Officers of the United States, shall be removed from Office on Impeachment for, and Conviction of, Treason, Bribery, or other high Crimes and Misdemeanors.”).

Reyndar finnst mér þessar niðurstöður þjóðfundarins, kröfurnar um siðgæði og heiðarleika athyglisverðar í ljósi þeirra staðreynda sem blasa við í stjórnkerfi þjóðarinnar, því við höldum áfram að kjósa yfir okkur stjórnmálamenn sem við vitum – eða ættum að vita – að þjóna þröngum sérhagsmunahópum í stað þess að hafa  bestu hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.

Vilji þjóðarinnar kemur fram í þeirri ríkisstjórn sem þjóðin, á hverjum tíma, kýs sér og ef fólkið telur að ákveðin siðferðileg gildi séu þeim mjög mikilvæg, þá kýs það þá fulltrúa sem halda þau gildi í hávegum. Það má því eiginlega segja að siðferði þjóðarinnar endurspeglist í þeim fulltrúum sem hún kýs sér. Eða eins og franski heimspekingurinn og stjórnmálamaðurinn Joseph M. de Maistre sagði: Sérhver þjóð hefur þá ríkisstjórn sem hún verðskuldar.

Auglýsingar
Þessi færsla var birt undir Stjórnarskráin. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s