Fjórða valdið – Þjóðfundur

Nýja stjórnarskráin á að endurspegla þau lýðræðislegu gildi sem þjóðin vill halda í hávegum, en einnig einstaka sögu íslensku þjóðarinnar. Til að  ná þessu marki ættum við að endurskapa Íslands merkasta afrek og framlag til stjórnmálasögu heimsins—Alþingi.

Alþingi Íslendinga nú er allt önnur stofnun en það þegar það var stofnað árið 930. Þar til Ísland gekkst Noregskonungi á hönd með Gamla sáttmála árið 1262, var Alþingi sameiginlegt þing íslenska þjóðveldisins og löggjafarsamkoma þess, í raun þjóðfundur, þar sem goðar landsins hittust til að ráða málum landsins. Lögrétta var hin eiginlega löggjafarsamkoma; dómsvald tilheyrði fjórðungsdómum og fimmtardómi Alþingis.

Öll þessi hlutverk hafa nú, eftir kenningunni um þrískiptingu ríkisvaldsins, verið færð í sérstakar, aðskildar stofnanir. En á Íslandi skortir í raun það eftirlit og jafnvægi sem er tilgangur þessarar skiptingar ríkisvaldsins. Í okkar þingbundna kerfi eru fáir fulltrúar raunverulega kosnir af kjósendum. Í núverandi flokksræði  er helsta hagsmunamál fulltrúanna eigin atvinna, en að auki hafa þeir takmörkuð áhrif á stjórnun landins, sem hefur færst á hendur fámenns ráðherraræðis.

Þjóðfundir þessa og síðasta árs þóttust takast með eindæmum vel. Þátttakendur ræddu í hópum þau gildi sem þeir töldu að stjórnarskráin ætti að byggja á og innihald hennar í tengslum við þau. Umræðuefninu var skipt niður í flokka og atkvæði greidd um þau atriði er talin voru mikilvægust og „ný.“ Sérhver hópur samdi svo stuttan úrdrátt um aðalhugmyndir og niðurstöður.

Ég legg til að í stjórnarskrá okkar komum við á „fjórða valdinu“ í svipaðri stofnun sem hefði raunveruleg völd til að fara yfir ákvarðanir ríkisstjórnarinnar. Eins og mál standa nú hefur þjóðin engin tæki til að bregðast við ríkisvaldsaðgerðum sem hún ekki telur vera í sína þágu. Þröngir hagsmunahópar, sérstaklega þeir sem hafa notið góðs af auðlindunum sem tilheyra þjóðinni – eins og útgerðarmenn og álfyrirtæki, hafa ótilhlýðilega getað otað sínum tota í skjóli baktjaldamakks núverandi kerfis.

Hlutverk þessarar stofnunar—sem ég kalla hér Þjóðfund—væri það í hnotskurn að yfirfara allar meiri háttar ákvarðanir ríkisins (lagafrumvörp, reglugerðir, milliríkjasamninga og aðra mikilvæga samninga, útnefningar o.s.frv.), tilgreina þær sem Þjóðfundurinn teldi ekki vera í þágu þjóðarinnar (svo sem óhagstæða orkusamninga og „silfurbakka“einkavæðingaáætlanir) og leggja fyrir dóm landsmanna í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þjóðfundurinn myndi, eins og síðustu tveir þjóðfundir, samanstanda af slembiúrtaki kjósenda úr þjóðskrá. Þátttakendur yrðu valdir eftir starfslok Alþingis og myndu hittast eigi síður en tveimur vikum eftir lok þingsins. Fundartími myndi vera, segjum tvær vikur (mæting yrði skylda eins og kviðdómsskylda í Bandaríkjunum). Eins og fyrr segir yrði aðalverkefni Þjóðfundarins að fara yfir „framleiðslu“ Alþingis og greiða henni atkvæði. Ef Þjóðfundur synjar lagafrumvarpi (eða samningi, útnefningu) samþykkis, fer frumvarpið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðfundur gæti einnig breytt frumvarpi; upprunalega frumvarpið og frumvarpið með breytingum Þjóðfundar yrði þá lagt fyrir þjóðina.

Fyrstu Þjóðfundirnir gætu hugsanlega verið… litríkir, en smátt og smátt myndi stöðugleiki komast á. Við höfum nú þegar afar góða reynslu af tveimur Þjóðfundum. Á þennan máta fáum við það besta úr báðum heimum—fulltrúar okkar munu samanstanda af hópi fólks sem hefur (eða á að hafa) sérfræðilega og  tæknilega kunnáttu á sviði laga og stjórnmála og öðrum hópi sem er þverskurður af allri þjóðinni. Samhliða þessu legg ég einnig til að Alþingismönnum yrði fækkað úr 63 í 37, ekki aðeins myndi það mæta kostnaði við Þjóðfundinn heldur eru Alþingismenn allt of margir.*

Að því er ég best veit hefur bein lýðræðistilraun af þessu tagi ekki verið reynd af heilli þjóð á okkar tímum, en ég held að þetta væri fyrirmyndar stjórnkerfi fyrir Íslendinga. Með tilliti til stærðar—fámennis—okkar myndi Þjóðfundurinn vera verulegur þverskurður af öllum kjósendum landsins og samt vera hópur sem vel gæti unnið saman frá praktísku sjónarmiði. Þar sem hann myndi hittast árlega yrði lítil hætta á lagaóvissu. Þar sem Þjóðfundurinn samanstæði af slembiúrtaki kjósenda sem valið yrði eftir starfslok Alþingis er lítil hætta á spillingu eða ótilhlýðilegu hagsmunapoti.

Þó hugmyndin um „ríkisstjórn Fólksins, af Fólkinu, fyrir Fólkið“ eins ogAbraham Lincoln komst að orði í Gettysburg ræðunni, sé að baki því þingbundna stjórnkerfi sem við höfum notast við sl. 66 ár skortir mikið upp á að kerfi okkar uppfylli þessar kröfur. Of oft hefur ríkisvaldið tekið ákvarðanir sem eru í beinni andstöðu við velferð fólksins í landinu, ákvarðanir sem hafa hagnast aðeins fáum íbúm á kostnað margra. Aðeins með því að skapa nýtt stjórnkerfi þar sem þjóðin sjálf hefur lokaorðið í öllum málum getum við losað okkur úr viðjum þeirrar náhirðarmennsku, fyrirgreiðslupólitíkur og hagsmunapots sem frá fæðingu lýðveldisins hefur þjakað þjóðina.

*Til samanburðar:

íbúar 2010   þingfulltrúar    íbúar per fulltrúa

Ísland       317,440                  63                      5,038

Danmörk 5,4 milljónir          175                    30,857

Svíþjóð     9,325,429             349                    26,720

Noregur   4,9 milljónir          169                     28,994

USA     308 milljónir              535                  575,700

Auglýsingar
Þessi færsla var birt undir Stjórnarskráin. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s