Umsnúið alræði

Fyrir nokkru birti ég hérna stuttan kafla úr nýútkominni bók eftir bandaríska blaðamanninn Chris Hedges,  Death of the Liberal Class, þar sem hann færir rök fyrir því að jafnaðarmenn – sem hann segir að í heimalandi sínu séu verstir í Demókrataflokknum – hafi svikið vinnandi fólk og lagst í bælið með auðvaldsræðinu. Flestar athugasemdirnar við færsluna gengu út á hugtakajarm – um Demókrata í Ameríku versus demókrata eða „jafnaðarmenn“ í Evrópu (þó ég geri ráð fyrir að flestir viti um hvað höfundurinn er að tala – „jafnaðarmenn“, „kratar“, „sósíaldemókratar“ „demókratar“ með stóru eða litlu d-i – en hin sívinsæla íslenska hefð að „stunda orðheingilshátt og deila um titlíngaskít” klikkar aldrei) – fremur en aðalatriðið, sem er auðvitað hvernig þessi stjórnmálastétt „jafnaðarmanna-krata-sósíaldemókrata-demókrata“ hefur snúið baki við vinnandi fólki og heldur áfram þátttöku í þeim þykjustuleik að óheftur kapítalismi virki flott, þrátt fyrir að öll heimsbyggðin skríði nú í brunarústum þessa sjúka græðgisræðiskerfis. Margir virðast álíta með rósrauðum gleraugum að í Evrópu sé „lýðræðishefð“ versus kapítalíska einræðið í USA, eins og Evrópulönd hafi eins og drifhvít mjöll sloppið við spillingu auðhringaræðisins. Það er deginum ljósara að þeir sem þykjast vera málsvarar vinnandi fólks í dag í þessum „sósíaldemókrata-krataflokkum“ í Evrópu hafa nær allir lagst í bólið með kapítalistum með afleiðingum sem öll heimsbyggðin nú sýpur seyðið af.

Kafli í bók Hedges fjallar um „umsnúna alræðishyggju.“ (sjá annars Er Ísland einræðisríki?)  „Umsnúin alræðishyggja (inverted totalitarianism) er afrakstur af þróun auðhringavaldsins og pólitískri lömun þjóðfélagsþegnanna. Umsnúin alræðishyggja er öðruvísi en sú hefðbundna, sem snýst í kringum lýðskrumara eða einn aðlaðandi leiðtoga. Hún lýsir sér í nafnleysi auðhringaríkisins. Valdhafar að baki umsnúnu alræðishyggjunnar koma ekki með nýtt skipulag í stað hins gamla eða ný tákn eða róttækar breytingar. Auðhringavaldið þykist halda í heiðri hefðbundið lýðræðisfyrirkomulag, frelsi og stjórnarskrá. En auðhringavaldið spillir svo og manipúlerar valdinu að lýðræði er ómögulegt.

Umsnúin alræðishyggja er ekki sett fram sem ákveðin hugmyndafræði, heldur er henni haldið áfram af valdhöfum og þjóðfélagsþegnum sem ekki virðast gera sér grein fyrir afleiðingum aðgerða eða aðgerðaleysis síns. En hún er jafnhættuleg og hefðbundin alræðishyggja. Í umsnúinni alræðishyggju þarf ekki að endurskrifa stjórnarskrána eins og fasískar eða kommúnistastjórnir myndu gera. Það er nóg að misnota lögmætar valdastofnanir, löggjafar- og dómsvald. Þessi misnotkun tryggir að dómstólarnir, mannaðir dómurum sem valdir eru af meðlimum auðvaldsstéttarinnar, dæma að gríðarlegar fjárupphæðir sem auðhringir gefa í kosningasjóði stjórnmálaflokka njóta stjórnarskrárverndar sem „tjáningarfrelsi.“ Ríkið lítur á auðhringi og fyrirtæki sem „persónur.“ Glæpamenn innan þessara stofnana geta komist hjá því að fara í fangelsi með því að borga ríkinu peninga, í „sáttagerðum“ án þess að þurfa að viðurkenna að hafa gert nokkuð rangt af sér. Það er til orð yfir þetta: spilling.“

„Þjóðin á enga stofnun eftir lengur sem unnt er að kalla lýðræðislega í raun. Þjóðfélagsþegnar, í stað þess að hafa raunveruleg áhrif, taka þátt í sýndarlýðræði, eða „þátttökufasisma“ (participatory fascism). Þeir tjá sig um hluti sem engu máli skipta – velja sigurvegara á American Idol eða tjá sig í skoðanakönnunum útbúnum af auðvaldinu. Íbúum Rómaveldis, án nokkurs raunverulegs valds, er leyft að ákveða að þyrma eða láta drepa skylmingaþrælinn á leikvanginum.

„Umsnúin alræðishyggja snýr hlutunum við. Það er alltaf pólitík, en pólitík ósnortin af pólitík. Flokkadrættir eru til sýnis, stöðugt rifrildi og læti og fjölmiðlar fjalla um það eins og íþróttaviðburði. Og auðvitað kosningar, þar sem athygli þjóðarinnar er látin snúast um persónur en ekki raunverulega valkosti. Persónur, en ekki pólitík þar sem við þurfum að finna sameiginlega hagsmunamál okkar í hrærigraut vel fjármagnaðra, skipulagðra hagsmuna sem eru í geðveikislegri sókn eftir greiðasemi ríkisins, þar sem lýðræðishefðum er drekkt í peningasjó…Við ruglum þekkingu saman við niðursoðin svör okkar við þessu ómerkilega kjaftæði. Og… sjálfsritskoðunin sem fjölmiðlar stunda, bæði með- og ómeðvitað, gerir fyrir umsnúnu alræðishyggjuna það sem ruddar og bókabrennur gerðu fyrir einræðisstjórnir fyrri tíma.“

Chris Hedges skrifar reglulega fyrir vefmiðilinn Truthdig.

Auglýsingar
Þessi færsla var birt undir Stjórnarskráin. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s