Stefnuskráin mín

Stjórnarskráin er arfðleið frá dönskum nýlendutíma og stjórnkerfið afkvæmi þeirrar viðleitni19. aldar nýlenduveldis að takmarka – ekki afnema – áður ótakmarkað konungsvald með stofnun þingræðis þar sem völdin eru hjá leiðtogum stjórnmálaflokka.

Þingræðinu fylgir andlýðræðislegt flokksræði atvinnupólitíkusa og flokkapotara. Flokkarnir skilgreina alla þjóðfélagslega umræðu á  annaðhvort/eða hátt, þegar margar mismunandi lausnir eru hugsanlegar. Þeir semja um að skipta á milli sín almannafé sem þeir veita áfram í gæluverkefni til hagsbóta fyrir vini og fjölskyldur. Flokkarnir ráða í mikilvæg embætti óreynda, óhæfa pólitíska skósveina sem hafa meiri áhuga á að komast í hærri flokksþrep en að þjóna þjóðinni. Þessir einstaklingar ná á toppinn í sínum flokkum með því að hlýða flokksforystunni, útiloka keppinauta sína og að hugsa aðeins um hvað sé best fyrir þá sjálfa og flokkinn, en ekki endilega hverjar séu bestu langtímalausnirnar fyrir þjóðina. Mun heppilegra er að Ísland verði beintfulltrúalýðræði og þjóðin kjósi fulltrúa sína án forvals pólitískra hagsmunapotara Fjórflokksins. Útiloka þarf að ráðherrar geti jafnframt verið þingmenn, en ráðherraræðið hefur gert þingið að stimpli fyrir gæluverkefni ráðherranna, verkefni sem prjónuð eru í löggjafarform – ekki af þingmönnum, heldur af sérfræðingum og hagsmunaaðilum í ráðuneytum – og keyrð í gegnum þingið með bægslagangi.

Þjóðin ætti að velja í beinni kosningu einn sterkan þjóðarleiðtoga –  í svipuðu kerfi og því franska eða bandaríska – sem síðan veldi þá samstarfsmenn sem hafa hæfni, menntun og reynslu til að stýra ráðuneytum. Sterkur leiðtogi gæti risið yfir flokkapólitík og látið hagsmuni þjóðarinnar ráða og gæti aukið traust hennar á leiðtogum sínum, en eitt alvarlegasta vandamál íslenskrar stjórnsýslu er rolugangur og ábyrgðarleysi eins og það sem þjóðinni var sýnt í kjölfar bankahrunsins. Það verður að teljast einstakur heigulsháttur að ekki einn einasti af þeim 100+ einstaklingum er komu fyrir Rannsóknarnefnd Alþingis skuli hafa tekið á sig snefil af ábyrgð. Einn sterkur þjóðarleiðtogi tæki ábyrgð á öllum mistökum og klúðri. Eins og Harry Truman sagði, „The buck stops here.“

Ný stjórnarskrá á að tryggja gegnsæi í stjórnsýslunni. Fundir Alþingis og nefnda þess, fundargerðir og samningar eiga að vera opnir almenningi nema undir alveg sérstökum kringumstæðum. Tryggja þarf að undantekningarnar frá aðalreglunni séu ekki svo almennar og víðfeðmar að unnt sé að troða hverju sem er þar undir, eins og í 5. gr. upplýsingalaga 50/1996, sem bannar aðgang að ákveðnum gögnum sem „ sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari.”

Stundum getur verið nauðsynlegt fyrir handhafa framkvæmdavalds að beita bremsum á löggjöf og þjóðarleiðtoginn ætti að hafa neitunarvald sem aðeins „súper“meirihluti þingsins gæti snúið við. (þó löggjöf hafi verið samþykkt með einföldum meirihluta þyrfti tvo þriðju hluta atkvæða til að samþykkja lög sem beitt hafa verið neitunarvaldi).

Til að hafa hæfilegt taumhald á pólitískum þáttum ríkisvaldsins er nauðsynlegt að dómsvaldið sé sterkt og sjálfstætt. Dómarar verða að hafa vald til að ógilda löggjöf og ákvarðanir framkvæmdavaldsins sem brjóta í bága við stjórnarskrártryggð réttindi þjóðarinnar.

Meginreglan um mannréttindi stjórnarskrárinnar á að vera sú að öll réttindi sem ekki eru sérstaklega upp gefin til ríkisins tilheyra þegnunum. Með öðrum orðum, ríkið getur aðeins skipt sér af aðgerðum einstaklingsins ef því er sérstaklega leyft að gera það. Ríkið getur ekki gengið út frá eða gefið sér að það geti hafst að; það verður að hafa umboð frá þjóðinni fyrir öllum sínum aðgerðum. Við erum í grundvallaratriðum frjálsir einstaklingar og við höfum veitt ríkisstjórn okkar aðeins takmörkuð réttindi.

Þó núverandi stjórnarskrá gefi til kynna að rétturinn til tjáningarfrelsis sé tryggður, er  raunveruleikinn annar, en íslensk lög heimila að henda fólki í fangelsi fyrir að móðga samborgara sína. Ótvírætt bann verður að leggja við slíkum lagaákvæðum.

Til að tryggja að allir þegnar njóti trúfrelsis verður að afnema öll tengsl milli ríkisins og hinnar íslensku lúthersku þjóðkirkju. Þjóðkirkja á ekki heima í nútíma þjóðfélögum. Hin íslenska þjóðkirkja er andlýðræðisleg, hún er orðin feit, löt og heimtufrek, sem eru örlög flestra einokunarstofnana.  Ef kirkjan hefur eitt hlutverk öðrum fremur, ætti það að vera að innræta með leiðtogum þjóðarinnar – og eigin leiðtogum – siðferðilega ábyrgðartilfinningu, en það hefur henni mistekist hrapallega.

Ný stjórnarskrá verður að tryggja fleiri grundvallar mannréttindi, svo sem rétt til lögfræðiaðstoðar og að endurspegla raunveruleika nútímans og taka til málefna sem forfeður okkar gátu ekki séð fyrir, eins og til dæmis tölvunjósnir, rafrænt klám og persónuupplýsingabanka.

Nauðsynlegt er að ný stjórnarskrá taki af öll tvímæli um að mannréttindaákvæðin takmarkist við manneskjur eingöngu og að tilbúnar lögpersónur njóti ekki verndar þeirra eins og gerst hefur í Bandaríkjunum, þar sem nýlegur dómur Hæstaréttar veitti hlutafélögum rétt til tjáningarfrelsis! (Fá þau næst rétt til að bera vopn?)

Ný stjórnarskrá ætti einnig að skilgreina takmarkanir tilbúinna lögpersóna í hlutafélagaformi.  Fjölgun slíkra fyrirbæra á undanförnum árum, sem og flókin tengsl þeirra á milli, hafa leitt til aðstæðna þar sem nær ómögulegt er að rekja fjármál þeirra eða gera fjárglæframenn ábyrga fyrir óskammfeilna þjófnaði. Þjófar flytja fé frá einu fyrirtæki til annars án nokkurra takmarkana og hlæja alla leið til Tortola. Einstaklingar fela fjárstyrki til stjórnmálamanna og fjölmiðla í gegnum fyrirtæki af þessu tagi og ómögulegt er fyrir almenning að rekja þennan flókna vef valda og áhrifa. Fjárfestar og fjármálaeftirlitsaðilar eru ófærir um að skilja viðskipti sem þeir eiga að rýna í og/eða hafa eftirlit með.

Íslensk gjaldþrotalöggjöf er smánarlegur mannréttindabrotapakki í formi skuldaþrældóms. Lögin gera einstaklingum ókleift að byrja upp á nýtt, einstaklingum sem til dæmis hafa vegna veikinda eða af ástæðum sem þeir réðu engu um, misst atvinnu sína, ævisparnað og fjárfestingar og sem (vegna glórulausrar peningastjórnar landsins) eiga oft minna í heimilum sínum en þeir skulda. Þessir einstaklingar losna aldrei undan skuldabyrðum sínum. Þessi skuldaþrældómur er þjóðarskömm. Hlutafélög í eigu fjárglæpamanna ganga frá milljarðaskuldum (þeim sem þeir ekki fá afskrifaðar í bönkunum) eins og ekkert sé og byrja næsta dag með nýja kennitölu, en venjulegt fólk fær aldrei tækifæri til að byrja upp á nýtt. Eina lausnin er að flýja úr landi – og Ísland er að tapa fjölda fólks úr landi vegna þessa óréttlætis. Stjórnarskráin á afdráttarlaust að tryggja rétt heiðarlegra einstaklinga til tækifæra til að byrja upp á nýtt án þess að þeir þurfi að lifa við ævilanga fordóma.

Stjórnarskráin verður að taka af öll tvímæli um hvaða auðlindir eru í eigu ríkisins og hvaða auðlindir eru í eigu einstaklinga. Samansöfnun auðs á hendur fárra einstaklinga, sem valdið hefur hættulegu misrétti í þjóðfélaginu, er afleiðing af  sóun ríkisstjórna  á auðævum þjóðarinnar – fiskinum í sjónum, bönkum og orku, svo dæmi séu nefnd. Stjórnarskráin verður að skilgreina eignarréttinn á skýran hátt og við hvaða aðstæður einstaklingar mega nota auðlindir í þjóðareign

Þjóðin á að hafa tækifæri til að taka beinar ákvarðanir í mikilvægum málum. Stærð – eða öllu heldur smæð – landsins, almenn menntun þegnanna og tölvuvæðing þeirra gerir að verkum að engin vandkvæði eiga að vera á því að skjóta ákveðnum málum beint undir dóm kjósenda. Þó tæknileg atriði eigi að vera í höndum þeirra sem hæfni, kunnáttu og reynslu hafa til að helga sig þeim, ættu grundvallarmálefni – eins og sala eða einkavæðing auðlinda þjóðarinnar, tekjustofnar ríkisins og milliríkjasamningar – að ráðast í þjóðaratkvæðagreiðslu

 

Auglýsingar